Lífsvefurinn er nám og styttri námskeið fyrir konur sem vilja læra að þekkja sjálfar sig betur og ná að vefa lífsins þræði á markvissan hátt í einkalífi og starfi. Lögð er áhersla á að skoða og þróa áhugasvið, hæfileika, þekkingu og reynslu sem kemur að gagni í einkalífi og starfi.
Lífsvefurinn var upphaflega þróaður 1991 í samvinnu þeirra Valgerðar H. Bjarnadóttur og Karólínu Stefánsdóttur, sem báðar eru félagsráðgjafar. Síðan hafa þúsundir kvenna sótt námskeiðið í ýmsu formi, allt frá stuttum kynningum og helgarnámskeiðum til 80 klst náms fyrir konur sem vilja læra að nýta Lífsvefinn í sínum störfum. Grunnþættir námsins og nálgunin hefur lítið breyst í þennan rúma aldarfjórðung, hann einfaldlega virkar eins og hann er, en vissulega þróast svona námskeið með breyttum tímum og þörfum, aukinni reynslu og bættri þekkingu leiðbeinenda.
Kennslan hefur á síðari árum verið í höndum Valgerðar og hafa oft verið haldin mörg námskeið ár hvert, bæði opin almenningi og í samstarfi við Vinnumálastofnun, VIRK og fleiri stofnanir.
Helstu efnisþættir: sjálfsmynd og samskipti; saga, hlutverk og staða kvenna; heilsa, tilfinningar og draumar; lífstilgangur, áhugasvið, markmið, möguleikar og hindranir.
Markmiðin eru m.a. að: læra að þekkja og virða sjálfa sig; að finna lífstilganginn á þessu stigi lífsins; læra að greina hindranir, yfirstíga þær og setja sér raunhæf markmið; læra leiðir til skapandi samskipta; styrkja sjálfsmyndina; þekkja sögu sína og lífsgildi; og að skapa sér gefandi lífs- og starfsvettvang.
Sjá einnig https://www.facebook.com/Lifsvefurinn/