Heils vetrar námsleið fyrir konur sem vilja nýta Lífsvefinn í störfum sínum
Leiðbeinandi: Valgerður H. Bjarnadóttir, félagsráðgjafi
Tvær helgar (haust og vor) og netsamvera þess á milli – alls ca. 70 - 80 klst í virkri samveru
Staðsetning: Helgarnar utan þéttbýlis og þess á milli er samvera í netheimum.
Lífsvefurinn – sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir konur var upphaflega þróað í samstarfi okkar Önnu Karólínu Stefánsdóttur og Valgerðar H. Bjarnadóttur, sem báðar erum félagsráðgjafar. Nálgunin er heildræn, byggir á hringlægri og kvenlægri (femínískri) hugsun og megináhersla er lögð á sjálfsþekkingu og innri styrk. Árið 1991 starfaði Karólína hjá Heilsugæslunni á Akureyri sem fjölskylduráðgjafi og Valgerður var jafnréttis- og fræðslufulltrúi Akureyrarbæjar. Í störfum okkar fundum við vel þörfina fyrir námsefni handa konum sem vildu vinna með sjálfar sig, fara í gegnum sjálfsskoðun til að ná auknum styrk og þroska. Við ákváðum því að taka saman í eina heild helstu leiðir sem við höfðum nýtt til eigin sjálfsstyrkingar og ekki síst aukinnar sjálfsþekkingar. Við byggðum bæði á fornri en tímalausri visku og nýjustu kenningum og rannsóknum á sviði sjálfsstyrkingar, samskipta og sjálfsmyndar kvenna.
Síðan hefur námskeiðið vissulega þróast og verið haldið oftar en tölu verður á komið, oftast sem 20 – 24 klst námskeið fyrir konur sem nýta námskeiðið fyrst og fremst til að styrkja stöðu sína í lífinu. Alls hafa hundruð eða þúsundir kvenna nýtt þetta námsefni á ýmsan hátt, bæði hérlendis og út um heim. Stundum hafa lengri útgáfur af námskeiðinu verið í boði, t.d. í Menntasmiðju kvenna, og stundum framhaldsnámskeið. Nokkrum sinnum hefur það verið í boði fyrir konur sem vinna með konur/konum í sínum störfum. Það var síðast gert fyrir u.þ.b. áratug og kominn tími á að bjóða aftur upp á slíkt.
Námskeiðið Vefum Lífsvefinn áfram er þannig annars vegar leið til aukinnar sjálfsþekkingar fyrir þær sem taka þátt, en þar er einnig lögð áhersla á að fjalla um það hvernig og hvers vegna vefur námskeiðsins er ofinn, orsakir á bak við námsnálgunina og námsaðferðir og að veita konunum þjálfun í að nýta þessar aðferðir og nálgun í sínum störfum, bæði inn á við og út á við.
Framan af unnu Karólína og Valgerður saman að þessu verkefni, en á seinni árum hefur Valgerður ein séð um kennsluna og þróuninna. Valgerður er menntuð sem félagsráðgjafi frá Sosialhögskolen Bygdöy í Noregi og lauk þaðan prófi 1980. Hún hóf störf sem fyrsti félagsráðgjafinn við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri það ár og byggði upp starfsemi félagsráðgjafardeildar við sjúkrahúsið. Hún tók þátt í stofnun Jafnréttishreyfingarinnar á Akureyri og Kvennaframboðsins í Akureyri, ásamt Karólínu og fleiri konum, og tók sæti sem bæjarfulltrúi fyrir Kvennaframboðið 1982. Eftir það var ekki aftur snúið og hún hefur starfað að málefnum kvenna á ýmsum vettvangi æ síðan. Á 10. áratug síðustu aldar fór hún til Bandaríkjanna og lauk BA gráðu í heildrænum fræðum með áherslu á draumavinnu og MA gráðu í femínískri trúarheimspeki og menningarsögu frá CIIS (háskóla í San Fransiskó). Síðan hefur hún að mestu starfað sjálfstætt að kennslu, námskeiðahaldi og ráðgjöf. Lífsvefurinn hefur að sjálfsögðu þróast á þessum áratugum frá því að hann hóf göngu sína, en grunnurinn er sá sami og 1992. Vefum Lífsvefinn áfram er byggður á grunni upphaflega námskeiðsins, þeirri þekkingu og reynslu sem VHB hefur aflað sér í gegnum nám og störf og ekki síst á reynslunni af því að vinna með Lífsvefinn og fleiri námskeið með miklum fjölda kvenna úr ólíkum áttum í 30 ár.
Uppbygging og innihald námskeiðsins Vefum Lífsvefinn áfram
Námskeiðið er byggt upp sem blanda af samveru utan þéttbýlis yfir tvær langar helgar og fundum á netinu. Nemendur fá lesefni frá VHB í upphafi, bókina um Lífsvefinn (óútgefin bók í vinnslu) og eins konar handbók með, auk lista yfir ítarefni, og síðan myndbönd með fyrirlestrum og verkefni til að vinna milli tímanna. Reiknað er með amk tveimur handleiðslutímum fyrir hvern nemanda á námstímanum og meira ef þörf þykir.
Reiknað með 8 - 12 nemendum, til að tryggja ákveðna skapandi orku í hópnum og um leið að allar njóti sín sem best.
Námið hefst með langri vinnuhelgi (ca. 20 virkar klst) og endar með annarri slíkri helgi. Þess á milli hittumst við einu sinni í mánuði að jafnaði (jafnvel tvisvar) 4 tíma í senn. Þannig er virk vinna í samveru í heild ca. 70 klst.
Milli tímanna vinna konur verkefni út frá lesefni og myndböndum frá VHB. Í tímunum er verkefnið svo kynnt og rætt, ásamt almennri umræðu um efnisþátt dagsins.
Lokaverkefni er svo að setja Lífsvefinn í nýtt samhengi, þ.e. að setja fram eins konar líkan að verkefni sem viðkomandi vill þróa áfram til að nýta Lífsvefinn í sínu starfi, inn á við og út á við. Það verkefni er hægt að vinna ein eða í samstarfi við aðrar í hópnum. Í námsskránni hér á eftir er stutt lýsing á verkefnunum undir hverjum þætti.